Um okkur

Landssamband ungmennafélaga (LUF) áður Landssamband æskulýðsfélaga (LÆF) er regnhlífasamtök fyrir félagasamtök ungs fólks á Íslandi og þeim tilheyra 31 aðildarfélög. LUF er sameign aðildarfélaganna, veitir þeim ekki samkeppni í starfi, heldur vinnur samkvæmt þeim. Aðildarfélög LUF eiga það sameiginlegt að vera lýðræðisleg, frjáls félagasamtök, sem starfa á landsvísu, stýrð af ungu fólki og starfa með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi. LUF er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum, talar fyrir hagsmunum ungra Íslendinga á alþjóðavettvangi og hefur upplýsingaskyldu að gegna gangvart aðildarfélögunum sínum auk þess að þjónusta þau á margvíslegan hátt. Meðal annars rekur LUF Leiðtogaskóla Íslands (LSÍ). LUF hefur það að markmiði að vernda og efla réttindi ungs fólks, stuðla að valdeflingu ungs fólks í samfélaginu, efla samstarf félagasamtaka ungs fólks, stuðla að umræðu sem og þekkingarsköpun um málefni ungs fólks og hvetja til virkrar samfélagsþátttöku þeirra. Þá er LUF aðili að Evrópska ungmennavettvangnum (e. European Youth Forum – YFJ).

LUF er með samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem tryggir rekstur skrifstofu.