Um skólann

LUF rekur Leiðtogaskóla Íslands (LSÍ) í Hinu Húsinu. Skólinn er sameiginlegur vettvangur aðildarfélaga LUF til að þjálfa persónulega hæfni, efla tengslanet, deila reynslu, auka getu og valdefla ungt fólk á Íslandi. Grunnþættir fræðslunnar á vegum LSÍ er lýðræði og mannréttindi í verki – þar sem áætlun Evrópuráðsins um lýðræðislega borgaravitund og mannréttindafræðslu (Kompás) er notaður sem leiðarvísir. Evrópuráðið fjárstyrkir LSÍ, viðurkennir hann sem „gott fordæmi“ (e. best practice) og veitir LSÍ formlega viðurkenningu fyrir að stuðla að óformlegu námi, með vottun útskriftaskírteina.

SagaMarkmiðFyrir hverja?LokaverkefniÚtskriftHvar?

Leiðtogaskóli Íslands eða LSÍ (áður Leiðtogaskóli LÆF) er afrakstur samvinnu allra aðildarfélaga LUF sem vildu bregðast við eftirspurn eftir hagnýtu námi og heildstæðri þjálfun ungs fólks sem eru þátttakendur í félagastarfi. Skólinn var sameignlega þróaður af aðildarfélögunum árið 2015. Hann var formlega stofnaður og þann 26. janúar 2016. Fyrsti árgangur skólans útskrifaðist þann 9. október 2016.

LSÍ nýtir þekkinguna sem er til staðar innan aðildarfélaga LUF, deilir henni á milli félaga, ásamt því að sækja í sérfræðiþekkingu annarsstaðar frá eftir þörfum. Leiðtogaskólinn leggur áherslu á að mæta þörfum félaga aðildarfélaga LUF. Námskeiðin sem eru kennd eru valin með lýðræðislegum hætti af aðildarfélögunum. Þetta er gert til þess að LUF geti þjónað hlutverki sínu sem best með því að veita aðildarfélögum þá þjónustu og þann stuðning sem þau sjálf telja að þau þurfi.

Í grunninn er markmið LSÍ að stuðla að því að samevrópska ungmennaáætlunin um mannréttindafræðslu verði að rauðum þræði í starfi LUF. Áætlunin miðar að því að óformleg fræðsla meðal ungmenna verði þróuð og viðurkennd sem fræðsla um mannréttindamál. Hlutverk ungmennafélaga er sérstaklega viðurkennt sem verðmætt framlag sem stuðlar að mannréttindafræðislu og eflingu lýðræðislegrar borgaravitundar. Jafnframt er mælst til þess að ungt fólk og ungmennafélög skapi grundvöll fyrir mannréttindafræðslu. LSÍ er sá grundvöllur og framlag LUF.

Með áætlun Evrópuráðsins sem leiðarvísi eru markmið LSÍ að efla leiðtogahæfni og valdefla ungt fólk í félagasamtökum með því að;

  • Veita ungu fólki nauðsynleg verkfæri og hagnýta fræðslu til að þekkja, æfa, vernda og efla eigin réttindi;
  • Virkja mannauðinn innan aðildarfélögum LUF og veita þeim stuðning í hagsmunastarfi, nýsköpun og láta hugmyndir verða að veruleika.
  • Auka starfshæfni og atvinnumöguleika ungs fólks með því að skapa tækifæri til þess að meta/viðurkenna óformlegt nám og stuðla að því að félagsstarf verið metið að verðleikum í námi og starfi;
  • Hvetja til samstarfs aðildarfélaga, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja virkni smærri félaga sem stríða við auðlindaskort;
  • Vera vettvangur fyrir ungt fólk utan félagasamtaka sem vill kynna sér starf ungmennafélaga og hvetja þá einstaklinga til að taka þátt í sjálfboðastarfi.

Langtímamarkmið LUF er að LSÍ verði kenndur á hverju ári og haldi áfram að þróast samhliða þörfum aðildarfélganna. Þá er vonast eftir því að LUF komi til með að geta boðið upp á úrval af hagnýtum námskeiðum. Stefnt er að því að LSÍ verði að viðurkenndum skóla í framtíðinni, verði metinn upp í nám og metin til góðs af atvinnurekendum.

Skólinn er hugsaður fyrir ungt fólk á aldrinum 16-35 ára sem sitja í stjórnum félagasamtaka, sjálfboðaliða og aðra áhugasama. Færri komast að en vilja, því verða þátttakendur valdir þannig að þeir endurspegli sem flest aðildarfélög LUF sem og út frá aldri, búsetu, kynjahlutfalli, áhuga á mannréttindum, vilja til að læra og stöðu til að miðla þekkingunni áfram.

Þeir þátttakendur sem komast inn í skólann skuldbinda sig til þess að vernda og efla mannréttindi í verki innan sinna félaga. Litið verður á leiðtogahlutverk og/eða reynslu af ungmenna- og hagsmunastarfi sem kost.

Skólinn er meðlimum aðildarfélaga LUF að kostnaðarlausu. Meðlimir sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins eiga kost á að sækja um niðurgreiðslu á ferðakostnaði.

Þátttakendur vinna lokaverkefni á því tímabili sem skólinn stendur yfir. Lokaverkefnið getur verið hvaða form sem er, svo lengi sem það tengist mannréttindum, beint eða óbeint. Dæmi: Nýliðunarviðburður, stefnumótunarferli innan aðildarfélags, þátttaka í #ÉgKýs verkefninu, alþjóðaverkefni, samstarfsverkefni tveggja eða fleiri aðildarfélaga, málþing, hópeflisviðburður, netherferð, útgáfa, viðskiptahugmynd, námskeiðshald, stofnun félags eða önnur nýsköpun.

Afurð verkefnisins getur jafnframt verið hvað sem er, svo lengi sem afurðin nýtist a.m.k. einu aðildarfélagi LUF, beint eða óbeint. Dæmi: Myndband, skýrsla, greinargerð, ljósmyndir, stefna félags, ritgerð, lög félags, vefsíða, glærusýning fyrir mannréttindanámskeið, styrkumsókn, viðskiptaáætlun, aðgerðaráætlun, verkefnaplan eða önnur afurð. 

Lokaverkefni 2016

Þátttakendur kynna lokaverkefni sín á opnu málþingi sem fer fram sunnudaginn þann 15. október. Eftir málþingið útskrifast þátttakendur með skírteini til staðfestingar um hvaða námskeið voru sótt.

LSÍ er í samstarfi við Hitt Húsið, Pósthússtræti 3-5, sem býður skólanum endurgjaldslausa aðstöðu fyrir öll námskeið og viðburði skólans. Hitt húsið er menningar- og upplýsingamiðstöð fyrir ungt fólk.